MÓÐU-BYGGINGIN í d'Yverdon-les-Bains, eftir Diller og Scofidio

Ímyndum okkur byggingu á stærð við fótboltavöll, gerða úr þoku sem svífur yfir stöðuvatni. Hún uppfyllir allar byggingareglugerðir, og er hvort tveggja í senn óhlutbundin rannsókn á hugmyndum um gagnsæi og hið byggða umhverfi og bygging sem hægt er að fara inn í, ganga um, þreyfa á og anda að sér.
Árið 1998 tóku arkitektarnir Elizabeth Diller og Ricardo Scofidio, sem störfuðu í New York, þátt í samkeppni um sjöttu svissnesku landsýninguna í d'Yverdon-les-Bains norðaustur af Genf. Sýninguna var áætlað að halda árið 2002 og átti hún að standa yfir í 6 mánuði. Diller og Scofidio höfðu myndað lið með öðrum listamönnum og arkitektastofum frá Rotterdam og Zurich um heildarskipulag svæðisins og var það kallað Extasia. Samstarfið tókst það vel að liðið sigraði í keppninni.
Grundvallarhugmynd sýningarinnar var að tvinna saman hugökin „ég og alheimurinn, næmi og kynferði“ út frá skynjun tilfinninganna. Lagt var út frá því í upphafi að nálgunin, tælingin, snertingin og næmi skynfæranna; samhjálp og friður, væru allt máttugir straumar úr fylgsnum minninganna. Það var þó umfram allt aðdráttarafl hins óþekkta sem sýningarstaðurinn grundvallaðist á. Til þess að túlka þessi hugtök var svæðinu skipt niður í átta hluta og hverjum þeirra gefið sérstakt heiti. Fyrsti hlutinn var nefndur „Heita hverfið við aðkomuna að Yverdon-les-Bains“, annar hlutinn „Ilmur og tæling – Expogarðurinn“, sá þriðji „Óljós blíðulæti, fjölmiðlatækni og hlutir í garðinum“, fjórði hlutinn kallast „Völundarhús tilfinninganna, ský“, sá fimmti „Blöndun skynfæranna, staður til almennra umræðufunda og sýningahalds“, sjötti hlutinn heitir „Allsnægtir“, sá sjöundi „Að falla í gildru, við jaðar stöðuvatnsins“ og loks er það „Bryggja, með útsýni yfir stöðuvatnið“.
Elizabeth Diller og Ricardo Scofidio fengu það hlutverk að hanna byggingu við stöðuvatnið Neuchatel. Þau vildu nota efnivið sem væri í samhengi við staðinn og umhverfið og komust að þeirri niðurstöðu að best væri að nota efni sem væri eðlilegt á svæðinu, þ.e.a.s. vatnið sjálft. Vatnið varð því efniviður arkitektanna og notað til að rata um völundarhús skynfæranna og upplifa óvæntar tilfinningarnar.Samneyti tækninnar og tilfinninga
Bygging Dillers og Scofidios var miðpunktur sýningarinnar, hangandi pallur hulinn manngerðri þoku sem gat rúmað allt að 400 gesti. Háþrýstitækni tryggir að þessi fljótandi skúlptúr sé sjáanlegur langt að og í alls kyns veðráttu; rigningu sem sólskini. Byggingin þenst út og myndar langa þokuslæðu í miklum vindum, bylgjast mjúklega út í kulda og færist upp eða niður eftir lofthita. Byggingin er gerð úr 100 metra langri, 65 metra breiðri og 25 metra hárri opinni stálgrind sem úðar óteljandi örsmáum dropum úr stöðuvatninu gegnum 31.500 þrýstistúta, sem aðeins eru 120 míkrómetrar í þvermál og tengjast 24 km lagnakerfi. Vatninu er þrýst með 80 loftþrýstieiningum á hárfína kniplinga, nákvæmlega staðsetta framan við opið, og dreifist í óteljandi örfína smádropa sem hver um sig er aðeins 4-10 míkrómetrar að þvermáli. Ördroparnir eru svo litlir að flestir þeirra haldast svífandi í loftinu. Ef nægilega mörgum þrýstistútum er komið fyrir á ákveðnu rými, þá metta þeir loftið raka og áhrifin verða eins og þoka eða, eins og í þessu tilfelli, líkust móðu. Stýritölvukerfi aðlagar styrkleika úðans að mismunandi veðurskilyrðum; hita, raka, vindhraða og vindátt: afleiðingin er sú að þó að þokumassinn sé stöðugur þá breytist hann í sífellu.Tillagan felur í sér að áður en gestir ganga inn í rýmið svara þeir nokkrum spurningum en svörin eru skráð í kerfistölvu byggingarinnar. Svörin gefa upplýsingar um sálrænt ástand viðkomandi, persónuleika hans og á hverju hann hefur dálæti. Síðan klæðast gestirnir stafrænum regnkápum sem jafnframt innihalda fyrrgreindar upplýsingar. Vegna þessara sérstöku eiginleika „stjórnkerfis-kápanna“ skiptast gestirnir á upplýsingum um sjálfa sig á ósjálfráðan hátt. Þegar gengið er niður löngu skábrautina að byggingunni, er komið að stórum opnum palli í miðjum þokumassanum þar sem hvítar samræður gestanna eru eina hljóðið sem heyrist. Um leið skynja gestirnir að ákveðið ósamræmi á sér stað. Smátt og smátt tapar gesturinn áttum og missir tilfinninguna fyrir sjónrænum tilvísunum þangað til komið er í algjörlega hvítt umhverfi. Allt er í móðu, án hluta, án dýptar, án mælikvarða, án rýmiskenndar, án massa, án yfirborðs, án samhengis eða nokkurrar viðmiðunar. Tímaskynið verður algjörlega að engu.
Þegar haldið er áfram upp á efri hæð byggingarinnar kemur fólkið að stað þar sem það hvílist og hittir aðra gesti, Englabarinn. Þar skiptist fólk á skoðunum og svo gæti farið að regnkápan roðnaði við það að bera kennsl á svipuð áhugamál eða sömu ástríður. Á Englabarnum er aðeins boðið upp á vatn. Hægt er að velja á milli ýmissa tegunda vatns í flöskum, vatns frá ólíkum höfuðborgum heimsins, vatns með gosi, eimaðs vatns, rigningarvatns, og jafnvel er boðið upp á einstakt úrval jöklavatns og vatn frá heimskautunum. Upplifunin er svipuð og að vera staddur í flugvél ofan skýja og virða fyrir sér víðáttu himinsins; tilfinningin fyrir tómarúminu er túlkuð til hins ítrasta.
Í þessari móðu-byggingu hefur tæknin gert manninum kleift að sýna sjálfan sig eins og hann er. Menning okkar vestræna þjóðfélags kennir okkur ákveðið hegðunarmunstur og tjáskipti fara yfirleitt fram eftir ákveðnum reglum sem fyrirfram er gert ráð fyrir. Mynd úr fókus er óskýr, ógreinileg, þokukennd, hún felur eitthvað, hylur, kemur úr jafnvægi. Við erum haldin þráhyggju gagnvart því sem lýtur að skynjun sjónarinnar og ofurseld miklum myndgæðum og þess vegna lítum við á hið óskýra sem glatað, það vekur efasemdir eða tortryggni. Arkitektarnir Diller og Scofidio snúa dæminu við, í höndum þeirra hefur tæknin fengið óvenjulegt viðfangsefni og gert vatnið að byggingarefni. Móðan gefur fólki óvænt tjáningarfrelsi, hún afmáir þessa skýru mynd af næsta manni við hliðina sem það gerir ráð fyrir að sjá. Tæknin gerir gestunum kleift að hafa samskipti sem snúast einungis um tilfinningar þeirra í tengslum við aðra, óháð fordómum. Með stafrænu regnkápunum sýna þeir tilfinningar sínar óáreittir, óháð útliti, kyni eða þjóðerni. Tjáskiptin verða heiðarleg.

Myndatexti:
1. Horft yfir móðu-bygginguna sem þenst út og myndar langa þokuslæðu í miklum vindum, bylgjast mjúklega í kulda og færist upp eða niður eftir lofthita.
2. Gengið niður skábrautina inn í þokumassa móðu-byggingarinnar þar sem hvítar samræður gestanna eru eina hljóðið sem heyrist.
3. Allt er í móðu, án hluta, án dýptar, án mælikvarða, án rýmiskenndar, án massa, án yfirborðs, án samhengis eða nokkurrar viðmiðunar
4. Byggingin er gerð úr 100 metra langri, 65 metra breiðri og 25 metra hárri opinni stálgrind sem úðar óteljandi örsmáum dropum úr stöðuvatninu gegnum 31.500 þrýstistúta, sem aðeins eru 120 míkrómetrar í þvermál, en tengjast 24 kílómetra lagnakerfi. (Útlitsteikning)
5. Móðubyggingin í smíðum þar sem vatnið er notað sem efniviður.

Ljósmyndir: Arkitektastofan Diller+Scofidio